LÖG
Fyrir ÞÓR félag stjórnenda
1.GR.
Félagið heitir ÞÓR félag stjórnenda. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2.GR.
Félagið er aðili að Verkstjórasambandi Íslands (VSSÍ).
3.GR.
Tilgangur félagsins er: Að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi atvinnuskilyrði, launakjör og önnur hagsmunamál og koma í veg fyrir að réttur þeirra sé fyrir borð borinn. Að vinna að aukinni menntun og verkhæfni og framförum meðal félagsmanna m.a. með því að styrkja félagsmenn til aukinnar menntunar, og stuðla að því að auka möguleika félagsmanna á að nýta sér það námsefni sem í boði er. Að vinna að orlofsmálum félagsmanna með það að markmiði að auka þá möguleika sem félagsmenn hafa á að njóta orlofs.
4.GR.
Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í marsmánuði ár hvert og skal til hans boðað með viku fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Þá skal kosin stjórn félagsins, skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum stjórnarmeðlim, skal fara fram skrifleg kosning. Þá skulu einnig kosnir tveir varastjórnarmenn, tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Ekki er stjórnarmeðlimur kosinn nema hann fái meirihluta greiddra atkvæða. Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa einungis skuldlausir félagsmenn.
5.GR.
Stjórn félagsins skal halda stjórnarfund þegar þörf krefur. Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar ef ástæða er til, ennfremur skal stjórninni skylt að boða fund ef minnst 10 félagsmenn óska þess.
6.GR.
Formaður setur fundi og stjórnar þeim, þó getur hann tilnefnt fundarstjóra. Fundarstjóri getur krafist skriflegra tillagna. Allar fundargerðir skulu undirritaðar af formanni og ritara.
7.GR.
Ritari skal bóka allar ályktanir og samþykktir sem gerðar eru á fundum félagsins, hann annist allar skriftir félagsins og haldi greinilega meðlimaskrá. Ber ritara að leggja skrána fram á hverjum aðalfundi.
8.GR.
Gjaldkeri sér um allar fjárreiður félagsins og innheimtir áskilin gjöld félagsins í samráði við formann og stjórn þess. Hann borgar reikninga og heldur greinilega bókfærslu yfir tekjur og gjöld félagsins. Hann semur ársreikning og efnahagsreikning, sem miðast við almanaksárið og afhendi skoðunarmönnum reikninga þá 10 dögum fyrir aðalfund. Á aðalfundi skal formaður leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar. Stjórnin varðveitir eignir félagsins og ávaxtar þær.
9.GR.
Stjórnin fer með málefni orlofshúsa og sér um að þeim sé vel við haldið. Formaður hefur á hendi framkvæmdir fyrir félagsins hönd, og í samráði við stjórn félagsins.
10.GR.
Inntökubeiðnir skulu sendar til stjórnarinnar ásamt meðmælum tveggja félagsmanna, getur þá stjórnin samþykkt og tekið umsækjendur inn í félagið. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og er því aðeins lögleg að félagsmaður sé skuldlaus. Þeir félagsmenn er hætta störfum vegna aldurs eða veikinda halda félagsréttindum sínum.
11.GR.
Á hverjum aðalfundi skal taka ákvörðun um hvað félagsgjaldið skal vera og greiðist það vikulega. Félagssjóður má aldrei vera stærri en sem nemur félagsgjöldum síðastliðins árs. Það sem umfram er, skal renna í orlofsheimilasjóð að undanskildum 10% sem renna í afmælissjóð. Þeir félagsmenn sem orðnir eru 67 ára skulu gjaldfríir.
12.GR.
Telji félagsfundur ástæðu til þess að taka ákvarðanir um gjöld úr félagssjóði í ákveðnum tilgangi, skulu þær samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða.
13.GR.
Hver félagsmaður skuldbindur sig til þess að lúta lögum félagsins og samþykktum þess. Félagsmaður getur ekki skorast undan því starfi, sem hann er kjörin til í þágu félagsins, nema að hann tilgreini ástæðu, er stjórn eða félagsfundur tekur gilda.
14.GR.
Gerist félagsmaður brotlegur við lög félagsins, tekur félagsfundur málið til meðferðar, og ræður meirihluti atkvæða úrslitum.
15.GR.
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi, og breytingin því aðeins lögmæt, að meirihluti fundarmanna séu henni samþykkir.
16.GR.
Uppsögn kjarasamninga eða aðrar ákvarðanir um kaupgjaldsmál eru því aðeins löglegar, að þær séu samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða.
17.GR.
Skylt er félaginu að hlíta lögum og reglugerðum Verkstjórasambands Íslands, svo framarlega að þau lög og reglugerðir brjóti ekki í bága við lög um félagsfrelsi og eignarrétt.
18.GR.
Ef félagið verður leyst upp eða hættir störfum, skal félagsfundur taka ákvörðun um eignir þess og skuldbindingar.
19.GR.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi í apríl 2010
No comments:
Post a Comment