Félagið


Saga félagsins

Verkstjórafélagið Þór sem er félag iðnlærðra verkstjóra í upphafi málmiðnaðarmenn og tréskipasmiðir í smiðjum og slippunum í Reykjavík en hefur nú verið útvíkkað með breyttum tímum til fleirri fagmanna.

Félagið er ekki fjölmennt hagsmunafélag en félagsmenn eru í dag um 92 talsins þar af starfandi um 63 menn,   Það á sér þó langa sögu varð 75 ára árið 2010. Upphafið má rekja til laugardagsins 5.október 1935.  Þá mættu 10 verkstjórar úr vélsmiðjunum  Hamri, Héðni, Landsmiðjunni og Slippfélaginu á fund að Norðurstíg 7 í Reykjavík til þess að ræða stofnun verkstjórafélags.  Þetta voru Bjarni Jónsson, Árni Jónsson og Victor Strange frá Hamri  Lárensíus Rósmarsson og Benedikt Guðbjörnsson frá Stálsmiðjunni  Júlíus Nýborg og Þórður Stefánsson frá Slippfélaginu í Reykjavík  Guðmundur Runólfsson, Ágúst Brynjólfsson og Einar Bjarnason frá Landssmiðjunni og Guðfinnur Þorbjörnsson frá Vélsmiðjunni Héðni.

Eftir nokkrar umræður var samþykkt að stofna félag og kosin var fjögurra manna nefnd til að gera uppkast að lögum fyrir félagið og undirbúa stofnfund.  Í nefndina voru kosnir þeir Bjarni Jónsson, Guðmundur Runólfsson,  Júlíus Nýborg  og Guðfinnur Þorbjörnsson.  Nefndin kom saman 12.október á sama stað og var Bjarni þá kosinn  formaður nefndarinnar og Guðfinnur ritari.  Eftir það hélt nefndin tvo fundi og lagði drög að lögum í 15 greinum  og ákvað stofnfundardag.

Það var svo laugardagurinn 2.nóvember 1935   klukkan 5:30 eftir miðdegi að stofnfundur Þórs var settur í Oddfellowhúsinu í Reykjavík.   Fundarstjóri var Bjarni Jónsson og ritari Guðbjörn Þorbjörnsson.

Í fundargerðarbók  segir meðal annars:         
Mættir voru á fundinum 10 manns,  þeir sömu og á undirbúningsfundinum að Bjarna Guðbjörnssyni undanskildum,sem var ekki í bænum.    Einar Bjarnason kvaddi sér hljóðs eftir að lesin hafði verið upp fundargerð nefndarinnar og lagauppkast.   Sagði hann að sér fyndist ekki eiga heima í þessum félagsskap.  Hann væri ekki verkstjóri nema að nafninu til og hefði allt aðra lífsskoðun en þá er virtist ætla að verða ríkjandi í félaginu.  Vildi hann að minnsta kosti ekki fallast á tvær lagagreinar þar sem ákvæði voru um að félagsmenn mættu ekki vera í Sveinafélagi járniðnaðarmanna.

Vakti þetta undrun annara fundarmanna sem vísuðu til fyrri samþykktra Einars um að stofna félagið. Endaði þetta orðaskak með því að Einar gekk af fundi eftir að samþykkt var tillaga Guðfinns Þorbjörnssonar um að þeir sem ekki væru fullkomlega vissir um að vera með í stofnun félagsins,íhuguðu málið í næði áður en þeir óskuðu inngöngu. Eftir þetta var haldið áfram að ræða lög félagsins sem síðan voru samþykkt og þessir kosnir í stjórn:     

Formaður  Bjarni Jónsson
Ritari :  Guðfinnur Þorbjörnsson
Gjaldkeri :  Guðmundur Runólfsson
Varamenn :  Árni Jónsson  og  Þórður Stefánsson
Endurskoðendur :  Victor Strange  og  Júlíus Nýborg

Á þessum fyrsta fundi var strax kosin nefnd til að athuga ráðningarkjör félagsmanna og undirbúa gerð kaupsamnings við vinnuveitendur.   Fundað var nokkrum sinnum í framhaldinu og teknir inn nýjir félagsmenn.    Samningamálin voru ofarlega á baugi en ekki voru allir sammála um þau mál.  Á fjórða fundi í félaginu 3.mars 1936  var lagt fram uppkast nefndar að samningi við vinnuveitendur.  Andmælti Ágúst Brynjólfsson því uppkasti  og sagði að betra væri að hafa engan samning.  Sagðist hann alltaf hafa verið á móti því að gera samning  við Vinnuveitendafélagið og einungis viljað samning við verkstæðin.  Guðmundur Runólfsson andmælti einnig samningsuppkastinu.  Að lokum var það þó samþykkt með nokkrum breytingum og töldu sumir  það mikils virði að með slíkum samningi myndi Vinnuveitendafélag Íslands formlega viðurkenna Verkstjórafélagið Þór og þar með flestir verkstæðiseigendur líka..  Samningamálin voru áfram rædd á fundi í félaginu 5.mai 1936 þar kom fram breytingartillaga sem var felld og upphófust þá heitar umræður og þrætur sem  ekki var unnt að bóka eins og stendur í fundargerð.  Eftir þetta varð félagið óstarfhæft og enginn fundur skráður í félaginu um árabil.

Þann 25.febrúar 1942 er ritað í fundargerðarbók Verkstjórafélagsins Þórs að nokkrir verkstjórar í járn- og skipasmíðaiðnaði hafi komið saman í húsi Slippfélagsins til fundar enn á ný til að ræða stofnun félags.  Voru það að hluta sömu aðilar og stofnað höfðu Þór í upphafi.  Var samþykkt á þessum fundi að endurreisa Þór, en skoðaðnaskipti urðu um samvinnu við sveina í sömu iðngreinum.  Ekki náðist fram að félagar í Þór fengju að halda réttindum sínum með aðgengi að sjóðum í sveinafélaginu.  Kosin var nefnd á þessum fundi til að fara yfir lög Verkstjórafélagins Þórs.  Þann 16 mars 1942 var haldinn aðalfundur þar sem breytt lög félagsins voru samþykkt og fyrsta stjórn eftir endurreisn félagsins var kosin:                                                                                                        

Formaður :  Páll Pálsson
Ritari :  Gísli G.Guðlaugsson
Gjaldkeri :  Þórður Stefánsson
Varaformaður :  Dýri Baldvinsson
Varastjórnandi :  Anton Jónsson

Á fundi í félaginu 9 apríl 1942 kemur fram að samningsdrög hafi verið lögð fyrir atvinnurekendur á tveimur fundum þann sama dag.  Enginn árangur varð af fyrri fundinum, en á sinni fundinum féllust atvinnurekendur á að greiða verkstjórum eftir- og næturvinnu sem áður hafði ekki verið gert nema í einstaka tilfellum.  Buðust atvinnurekendur til að greiða undirverkstjórum í grunnkaup 4 krónur í eftirvinnu og 5,64 í næturvinnu.  Yfirverkstjórum skyldi greiddar 4,50 krónur í eftirvinnu og 6 krónur í næturvinnu.

Haustið 1942 náði Félag járniðnaðarmanna samningum um 45% hækkun á dagvinnukaupi á meðan laun verkstjóra stóðu í stað.  Á fundi samninganefndar Verkstjórafélagsins Þórs með framkvæmdastjórum smiðjanna  15.september 1942 náðu verkstjórar samningum um hækkun grunnlauna sem ákveðin voru 217,75 krónur á viku með fullum vísitölubótum að viðbættum yfirvinnuhækkunum.  Þá náðu þeir fram þriggja mánaða uppsagnarfresti og 14 daga sumarfríi á launum.  Í veikinda- og slysatilfellum skyldi atvinnurekendur greiða allt að þriggja mánaða launum auk lækniskosnaðar.  Þessi samningur er talinn vera fyrsti samningur íslenskra verkstjóra sem ber nafn með rentu.

Helstu verkefni í gegnum tíðina og hvati að stofnun félagsins var að leggja fram kjarakröfur og leita samninga við atvinnurekendur.  Staðan í dag er sú að mikil áhersla er lögð á menntunarmál og jafnvel rætt um sérmentun verkstjóra.  Einnig eru endurmenntunarmál ofarlega á baugi sem og öryggismál.  Félagið á og rekur tvö sumarhús í landi Svartagils  í Borgarfirði sem hafa verið mjög vel nýtt.  Töluverður kraftur er í félaginu og annast félagsmenn meðal annars viðhald á sumarhúsunum sínum í sjálfboðavinnu,enda hæg heimatökin hjá faglærðum iðnaðarmönnum.

Skipasmíðaiðnaður hér á landi  er ekki svipur hjá  sjón  frá því  sem áður  var.   Þetta hefur  leitt  af  sér  talsvert  færri  atvinnutækifæri  fyrir  iðnmenntaða  málmiðnaðarmenn  og ekki  síður  tréskipasmiði.   Nýsmíði skipa er nær  engin og fátt annað en viðhald er eftir á því sviði.   Iðnaðarmenn í þessum geira hafa því leitað á önnur mið  og smiðjurnar sömuleiðis.   Framtíðarsýn félagsmanna er eigi síður sú að félagið verði áfram öflugt félag iðnlærðra verkstjóra.   Þrátt fyrir að félagið sé fámennt þá er sterkur vilji innan félagsins að auka félagatöluna og halda sjálfstæði Þórs sem hagsmunafélagi iðnlærðra verkstjóra.

Á aðalfundi félagsins 2009 kom fram að tvö verkstjórafélög óskuðu eftir því við stjórn að félagið sameinaðist öðru hvoru þeirra, þetta var fellt einróma af fundarmönnum. En þeirri stjórn sem þá tók við fannst í framhaldi af þessu að eitthvað yrði að gera til að efla og styrkja félagið því fækkun á félögum hafði orðið á milli nokkurra síðustu ára og erfitt að manna stjórn. Því voru boðaðir 8 einstaklingar úr félaginu til vinnufundar þar sem lagst var yfir stöðuna og reynt að finna leiðir til framtíðaruppbyggingar. Niðurstaðan af þeim  fundum var sú að leggja til við aðalfund 2010 að nafni félagsins yrði breytt og félagið nefnt ÞÓR félag stjórnenda, og að orðið iðnlærðir yrði tekið út. Aðalfundur samþykkti þessar breytingar einróm þar sem þetta opnaði fyrir aukinn félagamarkað og gæti orðið til þess að yngri aðilar gengju til liðs við félagið því hlutfall aldraðra félaga er orðinn nokkuð stór.